Rótarýklúbbur Ísafjarðar

Stofnaður mánudagur, 17. apríl 1939
Klúbburinn 9806 - Rótarýumdæmið á Íslandi - Stofnnúmer

Rótarýklúbbur Ísafjarðar var stofnaður 20. október 1937. Er klúbburinn annar elsti Rótarýklúbbur landsins, en Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 3 árum fyrr. Núverandi félagar eru um 20.

Klúbbfundir eru í hverri viku í Vestrahúsinu á Ísafirði nema í júlí og ágúst. Þar snæða félagarnir saman, ræða málefni klúbbsins og Rótarýhreyfingarinnar og hlýða á fróðleg erindi, sem klúbbfélagar, eða einhverjir á vegum þeirra, flytja.

Rótarýklúbbar eru starfsgreinaklúbbar. Er þá reynt að hafa á að skipa félögum af öllum kynjum úr sem flestum starfsgreinum á starfssvæðinu. Starfssvæði klúbbsins er norðanverðir Vestfirðir. Klúbburinn stendur ekki fyrir reglulegum fjáröflunum, eða peningasöfnunum, en fjármagnar verkefni sín sjálfur að mestu. Hann getur sótt um styrki til einstakra verkefna hjá Rotaryumdæminu á Íslandi og í Alþjóða Rotarysjóðinn.

Rótarýklúbburinn hefur unnið að mörgum samfélagsverkefnum frá stofnun. Á heimsvísu tekur hann m.a. þátt í að útrýma lömunarveiki og mörgum öðrum þjóðþrifaverkefnum í gegnum Alþjóðlega Rótarýsjóðinn. Hann hefur með hléum um langt árabil stundað skógrækt. Má geta þess, að klúbburinn hafði forgöngu um stofnun Skógræktarfélags Ísafjarðar á sínum tíma og átti frumkvæði að skógræktinni innan við Stórurð, fyrir ofan eyrina á Ísafirði.

Víða í nágrenni Ísafjarðar eru örnefnaskilti, sem klúbburinn setur upp og viðheldur. Efst á Arnarnesinu er útsýnisskífa, sem klúbburinn kom upp fyrir margt löngu. Mörg gömul og sögufræg hús á Ísafirði hafa verið merkt með skiltum, þar sem heitum þeirra og sögu er getið í nokkrum orðum. Önnur skiltaverkefni eru í vinnslu.

Í Karlssárskógi fyrir neðan veginn upp á Seljalandsdal á Ísafirði er klúbburinn að hefja langtímaverkefni um gerð útivistarsvæðis fyrir almenning í samráði við Skógræktarfélagið og Ísafjarðarbæ.

Í samvinnu við Tónlistarskóla Ísafjarðar stendur klúbburinn fyrir nokkrum tónleikum tónlistarnemenda á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði. Stefnt er að útvíkkun til nágranna sveitarfélaga. Á Ísafirði veitir hann verðlaun tengd námsárangri í Grunnskólanum á Ísafirði.

Rótarýfélagar sækja gjarnan fundi í Rótarýklúbbum þar sem þeir eru staddir fjarri heimahögum. Eru þeir auðfúsugestir hvar sem er í heiminum og er afar fróðlegt og skemmtilegt að kynnast Rótarýfélögum í fjarlægum löndum á þann hátt.

Meðlimir

Virkir félagar 19
- Karlar 18
- Konur 1
Paul Harris félagi 4
Klúbbgestir 0
Heiðursfélagar 2
Aðrir tengiliðir 0

Heimilisfang

Hörður Högnason

Árholt 13
400 Ísafjörður
Ísland